"Ný gögn í grunninnn"

„ÞETTA er mesta hugsjónarstarf, sem unnið er með þjóðinni,“ segir Oddur Helgason um skráningu ættfræðigagna. Hann rekur ORG ættfræðiþjónustuna ehf. í Skerjafirðinum og hefur meðal annars unnið við að skrásetja fólk af íslenskum ættum í Bandaríkjunum og Kanada.
Oddur er að byrja að skrá gögn um afkomendur Vesturfara, sem hann fékk frá Atla Steinarssyni blaðamanni fyrir nokkrum árum.

Safnað vestra
Atli bjó á tímabili í Bandaríkjunum og á árunum 1996 og 1997 vann hann fyrir nefnd á vegum utanríkisráðuneytisins við að safna saman upplýsingum um fólk af íslenskum ættum vestanhafs. Hann fékk félagalista hjá Íslendingafélögum og í kjölfarið sendi hann félagsmönnum staðlað form, sem hann hafði útbúið, og bað þá um að útfylla og skila síðan til sín.
„Ég fékk um 10.000 nöfn og flest frá Kaliforníu, sem kom mér á óvart,“ segir Atli. Hann rifjar upp að nefnd undir forystu Vésteins Ólafssonar hafi staðið fyrir verkefninu og hann hafi verið í sambandi við marga vestra vegna þess. Sérstaklega hafi kona nokkur á Washington-eyju í Minnesota-ríki verið hjálpleg. Hún hafi verið með langan nafnalista og þrýst á fólk að svara spurningunum, en blöðin fylla nokkrar möppur. „Mér fannst þetta best geymt hjá Oddi og hann lagði líka áherslu á að fá gögnin,“ segir Atli.

Um 680.000 nöfn
Oddur segir að hann og Þórir Sigurbjörnsson, áhugamaður um ættfræði og fyrrverandi íþróttakennari á Seyðisfirði, séu að byrja á því að skrásetja gögnin frá Atla. „Ég byrjaði á þessu 1995, er kominn með rúmlega 680.000 nöfn í grunninn og stöðugt bætist við,“ segir hann.
Oddur er fyrrverandi sjómaður en sneri sér alfarið að ættfræðinni fyrir um 13 árum. „Ég var atvinnulaus og fór á tölvunámskeið,“ rifjar hann upp. „Þá kynntist ég Espólín-forritinu hans Friðriks Skúlasonar og fór að fikta við það að gamni mínu eins og fleiri.“

Óvissa
Enginn veit hvað margir eru af íslenskum ættum í Bandaríkjunum og Kanada. Þeir sem mestu yfirsýnina hafa telja að um 300.000 manns séu í Kanada og ámóta margir í Bandaríkjunum. Tölurnar eru mun lægri samkvæmt manntali, en á það hefur verið bent að margir geti ekki um uppruna sinn í þessum manntölum og því sé ekki hægt að byggja á þeim. Samkvæmt kanadíska manntalinu 2006 voru til dæmis um 90.000 manns af íslenskum ættum í Kanada og þar af um 30.000 í Manitoba.
Oddur segir að frá byrjun hafi hann sett inn gögn frá Vesturheimi í ættfræðigrunn sinn. „Ekki bara Vestur-Íslendinga, heldur afkomendur og forfeður Íslendinga um allan heim,“ segir hann. Oddur bætir við að hann hafi í sínum fórum gögn um mjög marga sem hann eigi eftir að skrá í grunninn. „Hérna er ég með gögn um 400 til 500 þúsund manns sem á eftir að skrá, fólk alls staðar að úr heiminum,“ segir hann og fær sér í nefið. „Það þarf geysilega þolinmæði og þolgæði til þess að vinna þetta og lykilorðið er samvinna.“

Í hnotskurn
» Oddur Helgason átti eina ættfræðibók þegar hann hóf starfsemi sína fyrir um 13 árum. Nú hefur hann ekki tölu á bókum sínum og nöfnum í grunninum fjölgar stöðugt.
» Elín Ingibjörg Eyjólfsdóttir hefur aðstoðað hann frá byrjun og segir hann að hún taki við af sér þegar hann hætti.
» Oddur skráir alla sem eiga leið um. „Ég hef gagn af hverjum og einum sem kemur inn af götunni,“ segir hann.

Oddur og Elin

Elín Ingibjörg Eyjólfsdóttir aðstoðar Odd Helgason við skráningu í ættfræðigrunninn.

 

Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is

Morgunblaðið 6. október 2008

Til baka í greinasafn