"Í efnisleit á Akureyri"

Oddur Helgason hjá ORG – ættfræðiþjónustunni ehf. í Reykjavík er enn á ferð á Akureyri þessa dagana í efnisleit og aldrei fer hann tómhentur suður á bóginn aftur. Hann hefur farið víða og rætt við fjölda fólks um ættfræði og ýmislegt fleira.

Fyrirtæki hans sérhæfir sig í ættrakningum og söfnun allra þeirra ættfræðigagna sem Íslendinga varðar og þar með eru talin gögn um Vestur-Íslendinga. “Ég fæ nú gögn frá Haraldi Sigurðssyni fyrrverandi bankagjaldkera, um 170 möppur en þar er að finna minningargreinar úr öllum Akureyrarblöðunum frá upphafi, Íslendingi, Alþýðumanninum, Degi og Verkamanninum,” sagði Oddur.
Einnig stendur til að ORG og Minjasafnið á Akureyri fari í samstarf við að texta myndir sem Gísli Ólafsson fyrrverandi yfirlögregluþjónn tók af mönnum og atburðum, er hann og Árni Bjarnason fóru vestur um haf, í tengslum við vinnu þeirra við Vestur íslenskar æviskrár. Oddur sagði að ljósmyndasafn Minjasafnsins fengi aðgang að gagnagrunni ORG, sem myndi m.a. auðvelda það verk að mannanafnasetja myndirnar.
“Ég vil enn og aftur nota tækifærið og hvetja fólk sem hefur undir höndum upplýsingar að hafa samband við okkur. Þetta byggist á því að fá upplýsingar frá fólki. Ég átti eina ættfræðibók fyri 13 árum en í dag hef ég undir höndum tugþúsunda bóka og skjala,” sagði Oddur. Hægt að nálgast frekari upplýsingar um starfsemina á www.simnet.is/org.

oddur á Akureyri

Freygerður Baldursdóttir kíkir í ættfræðigrunninn hjá Oddi Helgasyni, á veitingastaðnum Allanum.

 

Vikudagur 2008

Til baka í greinasafn