"Glatt á hjalla á Góugleði"

Oddur Helgason hjá ORG – Ættfræðiþjónustunni, tók upp á því fyrir nokkrum árum að slá saman þorrablóti og góugleði í upphafi góu, með hefðbundnumþorramat og ýmsum öðrum þjóðlegum kræsilegum. Þetta hefur mælst vel fyrir og er því orðinn árlegur menningarviðburður í Skerjafirðinum þar sem Ættfræðiþjónustan er til húsa, hjá Þjónustumiðstöð ÍTR, rétt við göngustíginn.

Þór Magnússon Fyrrv. þjóðminjavörður kíkir oft við hjá Oddi.

Fimmtudaginn 28. febrúar sl. var þorrablótið og Góugleðin haldin þar að venju fyrir gesti og gangandi. Var vel veitt hjá Oddi eins og fyrri daginn og var fjöldi fólks þar saman kominn, allan eftirmiðdaginn og fram á kvöld. Þar mátti sjá ýmsa kunna Skerfirðinga, ættfræðinga, helstu þjóðfræðigrúskara á höfuðborgarsvæðinu, forstöðumenn bóka- og skjalasafna, þekkta fjölmiðlamenn og framámenn í fjármálageiranum og viðskiptalífinu.

Þetta menningarframtak Odds er liður í kynningarstarfsemi Ættfræðiþjónustunnar sem býr yfir umfangsmesta ættfræðigrunni hér á landi og feikilega öflugu bóka- og skjalasafni um íslenska
ættfræði og þjóðfræði, en safnið stækkar með degi hverjum.

Ættfræðiþjónustan er í samningsbundinni samvinnu við flest héraðs- og skjalasöfn landsins. Nú fyrir skömmu skrifaði Oddur undir samstarfssamning við Héraðsskjalasöfnin á Egilsstöðum og á Höfn í Hornafirði. Þá er nú í undirbúningi samstarf Ættfræðiþjónustunnar við Héraðsskjalasafnið í Skógum og á Selfossi, sem og við háskólana á Akureyri, Hólum og Bifröst.Slappað af Með kaffibolla eftir þorra- og góukræsingarnar.

DV 20. mars 2008

Til baka í greinasafn