"Ættartengslin fest á mynd"

ÞÝSK-ÍSLENSKUR kvikmyndagerðarmaður vinnur að gerð heimildarmyndar um ættfræðiáhuga Íslendinga og mikilvægi ættfræði hér á landi, þ.á m. um ættfræðivefinn Íslendingabók og notkun hans í daglegu lífi hér á landi.

Kvikmyndagerðarmaðurinn heitir Benedikt Bjarnason og er íslenskur í föðurætt og þýskur í móðurætt. Heimildarmyndin er lokaverkefni hans við kvikmyndagerðarskóla í Ludwigsburg í SuðurÞýskalandi. Benedikt sagði í samtali við Morgunblaðið að myndin fjallaði m.a. um mikilvægi fjölskyldutengsla og ættarinnar í íslensku samfélagi.
„Ég einbeiti mér einkum að fjölskyldutengslum, ættfræði og sögu ættfræðinnar hér á Íslandi,“
sagði Benedikt. Hann sagðist telja að hér á landi væri mun meiri og almennari þekking á ættfræði en annars staðar í Evrópu og fólk vissi mun meira um rætur sínar og forfeður en tíðkaðist til að mynda í Þýskalandi.

Ættarmót heimsótt
Tökur á myndinni hófust í vikunni með upptökum hjá ORG ættfræðiþjónustunni í Skerjafirði, þar
sem meðal annars var rætt við Odd Helgason ættfræðing. Upptökur fara auk þess fram víða um land og er ráðgert að þær standi fram í miðjan september. Verður meðal annars farið austur á land og ættarmót í Vík í Mýrdal heimsótt.

Benedikt er hálfíslenskur eins og fyrr sagði. Faðir hans er Magni Bjarnason og hefur hann alist upp í Þýskalandi fyrst og fremst og ekki komið hingað nema á sumrum í heimsókn til ættingja.“

Í HNOTSKURN

»Ættfræðiáhugi er óvenju mikill á Íslandi. Í Ættfræðifélaginu eru rúmlega 800 manns.

»A.m.k. 400 rit um ættfræði hafa verið gefin út á bók, auk fjölda fjölritaðra ættartalna.

»Ættfræðiheimildir hafa verið ritaðar hér á landi frá upphafi. Íslendingabók og Landnáma
eru dæmi um slíkar heimildir.

»Heimildir á borð við manntalið 1703, sem var það fyrsta yfir heila þjóð, auðvelda störf ættfræðinga enda eru íslensk manntöl fyrri alda nákvæmari en annarra landa. Elstu varðveittu ættartölurnar eru taldar vera frá því fyrir 1600.

Morgunblaðið 25. ágúst 2006

Til baka í greinasafn