"Það var meiri rómantík yfir sjómennskunni áður fyrr"

ODDUR Helgason veitir forstöðu ORG-ættfræðiþjónustunni í Reykjavík, en hefur víða ratað um ævina, m.a. verið á sjó í tæpa þrjá áratugi. Sigurður Ægisson leit inn til hans í vikunni og fræddist um gamla tíma og nýrri í lífi mannsins, sem um þessar mundir kann best við sig framan við tölvuskjáinn.


Það var kuldi og trekkur í höfuðborginni, þegar ég átti leið um stræti hennar fyrir nokkrum dögum. Ferðinni var heitið út á Skeljanes, en þar er ORG-ættfræðiþjónustan til húsa, í byggingu þjónustumiðstöðvar Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Mig vantaði ættfræðiupplýsingar hjá Oddi Helgasyni, framkvæmdastjóra og aðaleiganda, og vissi að fenginni reynslu, að þangað væri best að leita. En spekingurinn var ekki þar einn, frekar en endranær. Enda vita margir orðið um ágæti þess að reka inn nefið og þiggja kaffibolla og rabba, auk hins. Oddur er fæddur á Akureyri árið 1941 og Lúkas Kárason, sem þar var nú staddur í heimsókn, er úr Öxnadal í Eyjafirði, fæddur 1931. Og báðir eru þeir fyrrverandi sjómenn. Þeir voru að rifja upp gamla tíma þegar mig bar að garði.

Oddur Helgason og Lúkas Kárason. Efst til vinstri er Gróa á Leiti að hvísla sögur í Öfund (en á slíka iðju er ekki lögð stund á þessum bæ), á milli Odds og Lúkasar er Ættartré og Lúkas heldur svo á Kynlegum kvistum. Öll þessi útskurðarverk eru eftir Lúkas.


Lítið um ævintýrin núna

„Oddur var nú þekktur hér áður í flotanum,“ byrjar Lúkas og glottir. „Var m.a. kokkur.“

„Já, og ég drap engan,“ bætir hinn við, og kímir á móti.

„Ég var á sjónum í hartnær 30 ár. En ég fann að ég var ekki orðinn maður til að standa í þessu lengur og söðlaði því um.“ Hann fór að sýsla við ýmislegt og flutti loks til Reykjavíkur og hefur verið þar síðan.

En þeir félagar eru sammála um, að það hafi verið töluvert meiri rómantík yfir sjómennskunni þá en núna.

„Þetta er eins og svart og hvítt,“ fullyrðir Lúkas. „Það er ólýsanlegt hvað orðið hafa miklar breytingar á ekki lengri tíma. Ég var dálítið á fragtskipum erlendis í gamla daga, þar sem siglt var á evrópskar hafnir, og það var aldrei stoppað minna en í 4–5 daga í hverri þeirra, þannig að þá var maður á kafi í lífinu, sjoppunum og dömunum, og hlakkaði til í hvert skipti, og fór út aftur staurblankur og hóf að safna fyrir næstu inniveru með það sama. Að vera á togurum í dag er eins og að starfa í verksmiðju, og eftir að gámaskipin komu er aldrei tími til að fara í land erlendis, eins og í eina tíð, þegar ævintýrin gerðust. Nú eru þetta bara örfáir klukkutímar og ekkert hægt að gera af viti.“

„Já, það er af sem áður var,“ bætir Oddur við. Þeir horfa dreymandi augnaráði út í loftið, báðir tveir.

Ég gef þeim smá tíma, en kalla þá svo yfir í nútímann aftur með spurningu um aðra hluti.

„En hvað um ættfræðigrúskið?“

„Jú, ég hef alltaf haft áhuga á þeim fræðum, alveg frá því ég var barn,“ segir Oddur. „En þegar ég varð atvinnulaus fyrir 11–12 árum ákvað ég að prófa eitthvað nýtt og skráði mig á tölvunámskeið og kynntist þá Espólínforritinu. Ég fékk mér upp úr því tölvu og byrjaði að skrá heima. Á þeim tíma átti ég eina ættfræðibók, Niðjatal sr. Jóns Bjarnasonar, en núna skipta gögnin þúsundum. Þetta er eitthvert mesta safn um ættfræði og þjóðfræði sem henni tengist í landinu. Og það sem hér er inni er ekki keypt fyrir sjálfsaflafé ORG heldur fyrir velvild manna og fyrirtækja, sem hafa stutt dyggilega við bakið á okkur í gegnum árin. Það yrði of langt mál að ætla sér að telja það allt upp hér og nú, en ég held að á engan sé hallað þótt Íslandsbanki, Morgunblaðið og VÍS séu sérstaklega nefnd í því sambandi og Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur, og ekki síst þeir Kjarnafæðismenn á Akureyri. Í raun og veru rek ég stærsta fyrirtæki landsins; en enginn er þó ráðinn, enginn rekinn, og enginn hefur nokkru sinni fengið laun. Og það er svo merkilegt, að það sem ég hef gert um ævina stuðlar að því sem ég er að gera í dag; þessi flækingur á mér fyrrum. Ég var búinn að vera hringinn í kring um landið, kynntist fólki og á tengiliði um allt síðan.“

Oddur segir, að ættfræðigrunnurinn heiti Unnur, í höfuðið á eiginkonu sinni. „Hún er sú manneskja sem hefur stuðlað mest að því, að þetta hefur verið gerlegt. Hefur staðið við bakið á mér eins og klettur.

“ Allt er þetta nú við hæfi, enda Unnur ein dætra sjávarkonungsins Ægis.

FRAMHALD...