"Verkefni sem fjölmiðlar ættu að sýna meiri áhuga."

Í DAG er áhugi íslensku Brasilíumannanna á gamla landinu að vakna, og nokkrir þeirra hafa komið hingað í leit að rótum sínum. Áhuginn er gagnkvæmur og í dag vinnur Oddur Helgason ættfræðingur hjá ORG ættfræðiþjónustunni að því að styrkja tengslin með því að skrá niðja Brasilíufaranna í Espólín ættfræðigrunninn. Rannsóknir Lucianos Dutra eru því ættfræðinni mikilvægar, og á móti kemur, að auðveldara verður fyrir Brasilíufarana að rekja tengsl sín við frændfólk á Íslandi.

Oddur hefur reyndar mörg járn í eldinum, og rekur ferðir Íslendinga út um allar jarðir. Hann er að undirbúa það mikla verkefni að skrá niðja allra brottfluttra Íslendinga sem sest hafa að fjarri heimahögum. Hann segir því mikilvægt að þeir Íslendingar sem hafi upplýsingar um brottflutt skyldmenni, eða forfeður þeirra sem sest hafi að erlendis, láti þær upplýsingar í té. „Ég bið fólk líka um að henda ekki ættfræðigögnum, heldur leyfa okkur að skoða. Allir Íslendingar geta svo eignast sínar framættartölur og haft í sinni tölvu.“

Og Oddur nefnir dæmi um gagnlegan fróðleik. „Hér er ég til dæmis með bók um einn frægasta listmálara Norðmanna, Kaare Espolin Johnson. Hann er afkomandi Gísla Jónssonar sem var bróðir Jóns Espólín. Í Íslendingabók er hægt að fletta upp á Gísla, en síðan ekki söguna meir, því hann fluttist til Noregs. Í annarri bók höfum við hins vegar upplýsingar um alla hans afkomendur, og þær þarf að skrá,“ segir Oddur hróðugur. „Við erum að tölvuskrá í okkar grunn alla Íslendinga og alla þá sem tengjast þeim hérlendis og erlendis. Þetta er gríðarmikið verk og tímafrekt, en afar mikilvægt fyrir margvíslega rannsóknastarfsemi að það sé unnið. Þetta er verkefni sem fjölmiðlar ættu að sýna meiri áhuga.“

Oddur segir mikinn mun á ættfræðigrunnum ættfræðinga og Íslendingabók. Henni sé ætlað ákveðið hlutverk, en ættfræðigrunninum annað. Þar séu mun ítarlegri upplýsingar um einstaklinga, og að með skráningu á niðjum brottfluttra Íslendinga sé mun betur hægt að henda reiður á afdrifum þeirra út um allan heim. Það komi sér afar vel, þegar fólk snúi til baka að leita upprunans, en að líka sé gaman að geta séð hvert leiðir Íslendinga liggi út í hinn stóra heim. „Þessi elsta og almennasta fræðigrein okkar Íslendinga er því líka í útrás.“

Mbl. 30. október 2005 / Bergþóra Jónsdóttir

Til baka í greinasafn