Lokaritgerð Luciano Dutra frá HÍ janúar 2007

Ungur Brasilíumaður rannsakar afdrif íslenskra innflytjenda í Brasilíu

Fyrir tíu árum sat Luciano Dutra suður í Brasilíu og las sonnettur Jorge Luis Borges. Það vakti athygli Lucianos að Ísland og fornsögurnar komu þar iðulega við sögu, og hann velti því fyrir sér hvað í ósköpunum þetta Ísland væri eiginlega. Forvitnin var vakin, hann útvegaði sér bækur, leitaði á Netinu og fyrr en varði var hann kominn á kaf í Snorra-Eddu og Gylfaginningu, sem hann tók með áhlaupi og ákvað að þýða strax yfir á portúgölsku.Það tókst auðvitað ekki, því hann kunni ekki íslensku. Í dag situr Luciano Dutra á Íslandi, les fornbókmenntir, og er fullfær í málinu. Glíman við Gylfaginningu endaði í íslenskunámi við Háskóla Íslands árið 2002, og hér hefur hann verið síðan. Þegar kom að því að Luciano ætti að velja sér verkefni fyrir lokaritgerð, datt honum í hug að gaman væri að taka hliðarskref frá bókmenntunum og skrifa þess í stað um sögulegt efni.

Þá kom til skjalanna vestur-íslenskur vinur, sem benti Luciano á að í Brasilíu væru íslenskir vesturfarar og að lítið hefði verið skrifað um þá. Luciano fannst rakið að reyna að ná sambandi við þetta fólk og skrifa um afdrif þess í nútímanum. Til var sjötíu ára gömul saga Þorsteins Þorsteinssonar, Ævintýri frá Íslandi til Brasilíu, en ekkert úr samtímanum.

Lokaritgerð Luciano Dutra frá HÍ janúar 2007

Búa enn á upprunalegum slóðum
„Fyrstu Íslendingarnir fóru héðan til Brasilíu árið 1863. Þetta var nokkrum árum áður en ferðir til Kanada hófust og var fyrsta tilraunin til skipulagðra ferða til Vesturheims. Héðan fóru þá fjórir ungir menn. Tíu árum síðar fóru 37 Íslendingar til Brasilíu, en þrír þeirra fórust á leiðinni, í Hamborg í Þýskalandi. Einn Íslendingur fór einsamall árið 1863.“ Alls voru þetta því 39 manns sem náðu landi og settust að í Brasilíu. Luciano segir að í byrjun hafi hópurinn haldið vel saman, í borginni Curitiba í Suður-Brasilíu, sem hann kallar höfuðborg Íslendinga í Brasilíu, og þar búa enn langflestir afkomendur innflytjendanna. „Þótt flestir Íslendinganna hafi verið bændur, voru þeir hámenntaðir miðað við Brasilíumennina, því þeir kunnu allir bæði að skrifa og lesa. Ég held að þetta hafi verið mjög mikilvægt fyrir velgengni þeirra úti. Fjölskyldur sem eiga rætur sínar á Íslandi standa mjög vel í dag, miðað við aðra Brasilíubúa. Íslendingarnir stóðu sig mjög vel, stofnuðu fyrirtæki og trúfélög, áttu í viðskiptum og efnuðust margir vel.“
Luciano segir að heimildir um Brasilíufarana séu fáar. Fyrir utan bók Þorsteins sé það heimildamynd sem gerð var fyrir 25 árum og grein sem birtist í Árbók Þingeyinga árið 2000. Hann kveðst því vona að lokaritgerðin fylli upp í ákveðið skarð í þeim efnum.

Allir landnemarnir í Brasilíu voru Þingeyingar, en maðurinn sem lést í Hamborg var Skagfirðingur. Luciano segir að þrátt fyrir að aðeins 39 manns hafi komist á leiðarenda, hafi gríðarlegur áhugi verið hér heima fyrir frekari ferðum til Brasilíu. „Frá því um 1860 var áhuginn á Brasilíuferðum mjög mikill og á árunum 1863-65, þegar stofnað var Útflutningafélag í Suður-Þingeyjarsýslu. Meira en 500 manna hópur var búinn að skrá sig til Brasilíuferðar. Skip átti að koma og sækja fólkið til Akureyrar og sigla með það alla leið. Sumarið 1865 yfirgaf þetta fólk jarðir sínar, seldi búfé, reif sig upp og safnaðist ferðbúið saman við Akureyrarhöfn. Einar nokkur á Nesi sá um þetta, en það varð aldrei úr því að skipið kæmi. Það voru mikil vonbrigði, og Einar var sakaður um að hafa einungis ætlað að hafa fé af fólkinu, sem hafði greitt fyrir að fá að ganga í Útflutningafélagið. Það er ekki vitað hvort hann hafði raunverulega í hyggju að svíkja fólk, en reiðin í hans garð var mikil. Margt þessa fólks fór á endanum til Kanada og Bandaríkjanna, en þeir 37 sem voru staðráðnir í því að fara til Brasilíu voru skyldmenni fjórmenninganna sem fóru í fyrstu ferðina þangað suður eftir 1863.“

Íslendingum fannst Brasilía sem fyrirheitna landið; þar var stanslaust sólskin, smjör draup af hverju strái, ávextir uxu á trjám, og náttúruleg harðindi næsta fátíð. Íslendingarnir settust að í námunda við Þjóðverja. Þeir nutu þess margir að kunna dönsku og áttu því auðvelt með að tengjast germönskum frændum sínum að siðum og menningu. Margir Íslendinganna lærðu þýsku áður en þeir lærðu portúgölsku.

Íslensk ættarnöfn og söltuð síld
Luciano Dutra segir ómögulegt að segja til um fjölda afkomenda íslenska þjóðarbrotsins í Brasilíu í dag, en að ætla megi að það séu á milli 1.500 og 2.000 manns. Hann segir þá marga enn bera sterk íslensk einkenni í útliti, og margir þeirra bera nöfn sem bera upprunanum í Þingeyjarsýslum vitni – eins og Söndahl, Bardal og Reykdal. „Þau tala þó ekki lengur íslensku, en það eimir enn eftir af til dæmis matarsiðum – þau borða sérstaklega saltsíld. Fólkið er meðvitað um uppruna sinn, þótt það viti lítið sem ekkert um Ísland í dag. Hugmyndir margs þess um Ísland eru um landið sem forfeður þeirra yfirgáfu, land torfbæja, fátæktar og harðinda. Fáir gera sér grein fyrir stöðu Íslands í dag.“

Luciano vinnur samhliða náminu hér að dagskrárgerð fyrir brasilíska sjónvarpið. Hann hefur gert þætti um Ísland og á sunnudaginn verður þáttur um kvennafrídaginn sýndur í Brasilíu fyrir 25 milljónir manns.

Mbl. 30. október 2005 / Bergþóra Jónsdóttir

Til baka í greinasafn