Hinn þjóðlegi fróðleikur

HLUTI menningar Íslendinga er allt sem lýtur að ætt, uppruna og tengslum við landið og hvert annað. Þar leikur sagan og átthagafræði stórt hlutverk. Að þessu leyti eru Íslendingar ekki einsdæmi þótt hér sé samansafnaður meiri fróðleikur um heila þjóð og sögu hennar í hörgul en tíðkast víða annars staðar.

Netið geymir gríðarlegt magn upplýsinga eins og flestum er ljóst. Efni um ætt og uppruna er þar ekki undanskilið. Þegar leitarvélar eru beðnar um að finna ákveðinn fæðingardag, verður niðurstaðan oft sú að leitin endar í niðjatali einhverrar ættar eða fjölskyldu. Þótt einnig séu dæmi þess að við leitina komi minningargreinar sem eru meiður af sama stofni auk ferils tiltekins fólks sem fætt er ákveðinn dag. Skiptir þá ekki máli hver staða og stétt viðkomandi er. Það atriði að getið sé fæðingardags sýnir almennan áhuga fyrir viðkomandi þótt einhverjum þætti að slíkt breyti ekki miklu.

Fjöldi manns vinnur að ættfræðirannsóknum og gerð niðjatala. Ýmist sem hreinir áhugamenn eða hafa af því framfæri sitt. Eitt slíkra fyrirtækja er ættfræðistofan ORG þar sem viðamikið og óeigingjarnt starf er unnið þótt eigi sé á aðra hallað með þeim ummælum. Það sem gerir starf ORG sérstakt er hversu víða upplýsingasöfnun teygir anga sína. Reyndar út um allan heim. Starfið sem unnið er af ORG verður vart unnið nema í samvinnu við þjóðina alla og með aðstoð hennar. Hætt er við að þrátt fyrir fornfýsi geti farið svo að það verði flutt úr landi og yrði þá sannarlega skarð fyrir skildi. Höfundur hefir notið aðstoðar ORG um nokkurra ára bil sem hófust með ósk um ættrakningu er hafði komist í strand.

Benti margt til þess að sameiginlegir forfeður yrðu fundnir eftir ákveðinni leið vegna nafna sem voru algeng í báðum fjölskyldum. Þær vísbendingar reyndust blekkingar einar og hrævareldar í myrki. Með lítilli fyrirhöfn af hálfu ORG var þrautin leyst. Það sem gagnagrunnur ORG hefir fram yfir flesta aðra er hversu viðáttumiklar tengingar innan hans eru og fáir ótengdir miðað við umfang hans. Nú er grunnurinn kominn nokkuð á sjöunda hundrað þúsund manns en enn er eftir að fóðra hann á hundruðum þúsunda sem upplýsingar liggja fyrir um þótt þeir séu ófærðar í grunninn. Vinna við slíkan grunn tekur engan enda meðan land byggist og kynslóðir koma og fara.

Makalaust er hversu mikla samkennd vitneskjan um blóðbönd vekur meðal fólks þótt frændur séu oft frændum verstir. Dæmi um það eru telpur tvær vestur í Atlanta, báðar af íslenskum ættum misjafnlega langt aftur, önnur í fimmta lið en hin í annan. Engu að síður kalla þær hvor aðra frænkur þótt fara verði tíu ættliði aftur til sameiginlegra forfeðra. Til forna hafði slík vitneskja mikla þýðingu allt að fimmta lið vegna hefndarskyldu framfærsluskyldu og arfs er mann gátu átt eftir fimmmenninga við sig.

Upplýsingar um blóðbönd voru einnig brýnar þar sem skyldleiki gat komið í veg fyrir hjúskap samkvæmd þrengri reglum en nú gilda. Höfundi er kunnugt um hjón er gefin voru saman snemma á öldinni er leið og þurftu sérstaka undanþágu frá hjúskaparlögum þar eð þau voru þremenningar.

Kristjón Kolbeins viðskiptafræðingur.

Mbl. 3. október 2005

Til baka í greinasafn