Ættfræðigrunnur á 200 milljónir

Odd Helgason dreymir um að stofnað verði ættar- og þjóðfræðisetur utan um fyrirtæki hans ORG ættfræðiþjónustuna. Hann hefur lagt aleiguna og meira til í uppbyggingu ættfræðigrunnsins Unnar og segir verðmæti hans nema um 200 milljónum króna.

„Viltu í nefið?“ spyr Oddur Helgason, oft kallaður spekingur. Blaðamaður afþakkar en Oddur fær sér vænan skammt í aðra nösina. Ekki þann fyrsta og ekki þann síðasta þennan morguninn. Þau tímamót urðu í sögu ORG fyrr á árinu að Íslendingur númer sex hundruð þúsund var skráður í ættfræðigrunninn Unni. Síðan hafa margir bæst við og í dag telur skráin tæplega 626 þúsund Íslendinga.

„Draumur minn er að gera þetta að ættar- og þjóðfræðisetri Íslendinga með um þrjú og hálft stöðugildi og öflug hollvinasamtök að baki sér,“ segir Oddur. Upplýsingarnar eru allar í ættfræðiforritinu Espólín sem unnið er í Dos-tölvukerfi en mikilvægt er að færa það yfir í hið notendavæna umhverfi Windows. Oddur veit að það kostar peninga en ekki hve mikla peninga. Hann veit líka að upplýsingarnar sem hann hefur fært inn í grunninn eru verðmætar og slær á að kostnaðurinn sé um 350 krónur á hvert nafn. Það gera tæpar 220 milljónir króna. Þau verðmæti vill hann færa þjóðinni með stofnun ættarog þjóðfræðiseturs.

Þótt aðeins sé áratugur síðan Oddur kom ORG á fót hefur ættfræðiáhuginn blundað lengi í honum. „Ég hef haft áhuga á ættfræði frá því ég var barn,“ segir hann. Örlögin höguðu því þannig að hann fór að sinna þessu áhugamáli sínu af kappi. „Ég varð atvinnulaus og fór á tölvunámskeið og kynntist þar Espólín-forritinu.“ Síðan hefur hann varla stoppað og hver einasta króna sem honum hefur áskotnast síðasta áratuginn hefur runnið í ættfræðina. „Ég hef fengið styrki og venslamenn mínir í Kjarnafæði sjá um að ég hafi eitthvað í kjaftinn á mér því maðurinn þarf jú meira en andlegt fóður,“ segir Oddur. Í gamla daga kölluðu fræðimenn það neftóbaksstyrki þegar þeir fengu eitthvað smáræði úr opinberum sjóðum enda dugðu peningarnir vart fyrir öðru en nokkrum neftóbaksdósum. Og þeir tóku jú vel í nefið karlarnir í gamla daga, líkt og Oddur nú.

„Ég get annars sagt það að grunnurinn heitir eftir þeirri manneskju sem hefur stuðlað mest að því að þetta er hægt og það er konan mín. Það er lykilatriði að vera vel giftur og hún Unnur mín hefur skilið það sem ég hef verið að gera.“ Oddur bendir á að þau hjónin misstu íbúðina sína en endurheimtu hana úr höndum lánadrottna. „Ég þekki persónulega marga af fjármálamönnum landsins og get leitað til þeirra,“ segir Oddur spekingur og fær sér vænan slurk af íslensku neftóbaki.
bjorn@frettabladid.isTil baka í greinasafn