2005 -

Vesturbæjarblaðið heimsótti Odd Helgason ættfræðing í fyrirtæki hans sem nefnist ORG – ættfræðiþjónustan og er til húsa í Skerjafirði

Við erum öll komin af Jóni Arasyni

ORG-ættfræðiþjónustan ehf er til húsa á efri hæð hússins að Skeljanesi í Skerjafirði. Ættfræðiáhugi Íslendinga er sagður mikill og löngum hafa gráskeggjaðir neftóbakskallar haft unun af því að grúfa sig yfir rykfallnar kirkjubækur og önnur plögg og rýna í ættir fólks. Vesturbæjarblaðið lagði leið sína í Skeljanesið til þess að grennslast fyrir um starfsemi ættfræðiþjónustunnar sem þar starfar. Húsnæðið er rúmgott og vel búið húsgögnum og margs konar tölvubúnaði. Ættfræðibækur fylla allar bókahillur sem eru margar og á veggjum hanga meðal annars myndir af ættarhringjum og ættartrjám. Framkvæmdastjóri og aðaleigandi ORG er Oddur Helgason ættfræðingur. Hann fyllir að nokkru út í hina gömlu ímynd ættfræðingsins, með grásprengt skegg og handleikur tóbakspontuna milli þess sem hann snússar sig. Oddur tekur komumanni vel og er málreifur.

-Fyrir tíu árum átti ég eina ættfræðibók sem er Niðjatal séra Jóns Benediktssonar. Nú er hér hins vegar mjög mikið og gott bókasafn sem er einstakt í sinni röð að mörgu leyti, segir ættfræðingurinn og bendir á troðnar hillurnar. –Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á ættfræði og hvers konar þjóðlegum fróðleik. Hef aldrei lesið skáldsögu á ævi minni, ekki einu sinni reyfara. Bara sótt fróðleik í bækurnar, bætir Oddur við. Hann er fæddur á Akureyri og alinn upp af ömmu sinni og afa. –Ég fór ungur á sjóinn og var á bátum og togurum. Réri úr öllum landshlutum og einnig var ég á skipum Hafrannsóknarstofnunarinnar, vitaskipum og hvaðeina. Þessi flækingur hefur skilað mér miklu því ég þekki mikinn fjölda fólks um land allt sem hefur komið sér vel í ættfræðinni, segir Oddur og föndrar við tappann á pontunni.

Tölvunámskeið var upphafið
Um aðdraganda þess að hann stofnaði ættfræðiþjónustuna segir Oddur:
-Ég varð atvinnulaus fyrir 10 árum og fór þá á tölvunámskeið. Þar kynnist ég Espolín ættfræðiforriti Friðríks Skúlasonar og áhuginn blossaði upp sem aldrei fyrr. Síðan hef ég verið að. Ég stofnaði þetta fyrirtæki til þess að allir geti vitað um ættir sínar gegn hóflegu gjaldi því mér ofbauð þetta brask með ættfræðina. Við erum hér með 600 þúsund nöfn í gagnagrunni og eigum gögn um 500 þúsund til viðbótar. Sérhæfum okkur í ættrakningum og söfnun allra þeirra ættfræðigagna sem Íslendinga varðar, þar á meðal Vestur-Íslendinga. Aðaláherslan hefur verið lögð á söfnun framætta og þar er stuðst við ritaðar heimildir fyrri tíma, svo sem kirkjubækur, manntöl, dómabækur skuldaskrár og legorðsreikninga. Mikil vinna hefur verið lögð í að afla handrita og annarra gagna alls staðar að af landinu. Þá erum við í góðu samstarfi við bæði einkaaðila og opinbera aðila, svo sem skjala- og handritasöfn sem og ættfræðinga og áhugafólk um ættfræði, segir Oddur og sýgur góðan neftóbaksskammt í nasir sér.

Á almenningur góðan aðgang að þessari þjónustu?
-Ég er nú hræddur um það. Hingað eru allir velkomnir og ég hvet fólk til þess að koma í heimsókn eða hafa samband. Við bjóðum einstaklingum upp á ættrakningar gegn vægu gjaldi og góður tækjabúnaður gerir okkur mögulegt að búa til ættartré og aðstoða fólk við gerð niðjatala og framætta. Við getum prentað út ættartré og ættarhringi í sérstökum prentara. Hér geta allir fengið upplýsingar um sínar ættir og ættartölur. Það verða margir hissa þegar við förum að rekja ættir þeirra og við erum líka með mestu gögnin um Vestur-Íslendinga. Hér liggur því gífurlegur fróðleikur.

Af Hvassafellsætt
Þeir sem hafa einhverja nasasjón af ættfræði hafa heyrt um ýmsar ættir sem hafa verið færðar á bók á undanförnum árum og áratugum. Oddur Helgason er spurður af hvaða ætt hann sé.

-Ég er af Hvassafellsætt. Það er verið að gera samantekt af þessari mestu skálda- og mannfræðingaætt landsins. Um 33 þúsund niðjar Tómasar og Rannveigar í Hvassafelli í Eyjafirði eru þegar skráðir og svo eru Vestur-Íslendingarnir til viðbótar. Já, það eru margir nafnkunnir einstaklingar af Hvassafellsætt. Það má nefna Jónas Hallgrímsson, Káinn, Arnald Indriðason og Magnús Magnússon sjónvarpsmann í Bretlandi. Þær Ingibjörg Sólrún og Steinunn Valdís eru báðar af Hvassafellsætt og svo get ég lengi talið. Það held ég, segir ættfræðingurinn og býr sig undir góða snýtu.

Blaðamaður minnist þess að þá hann var í skóla hélt sögukennarinn því fram að allir Íslendingar væru komnir af séra Barna-Sveinbirni í Múla. Hann hafi átt 50 börn fyrir utan hálfrefi. Þetta er borið undir Odd Helgason sem lætur ekki slá sig út af laginu.

-Ég skal segja þér það að við erum öll komin af Jóni Arasyni. Ég er að verða kominn með 450 þúsund afkomendur Jóns Arasonar á skrá, svarar ættfræðingurinn og andlitið hverfur bak við klútinn meðan drunan gengur yfir.

Til baka í greinasafn