Laugardaginn 24. júlí, 2004 - Dagbók Morgunblaðsins

ORG-ættfræðiþjónustan ehf. hefur tekið í notkun nýjan tölvubúnað

Bætt þjónusta við almenning

Oddur Helgason fæddist á Akureyri 29. nóvember 1941. Hann hefur stundað sjómennsku hátt í þrjátíu ár og stofnaði ORG-ættfræðiþjónustu ehf. árið 1999.

ORG-ættfræðiþjónustan ehf. er íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í ættrakningum og söfnun allra þeirra ættfræðigagna sem Íslendinga varðar og þar með eru talin gögn um Íslendinga um allan heim. Þá er átt við allt það fólk sem þetta land byggir og hefur byggt, forfeður þess erlendis og afkomendur þess erlendis og allt fólk er því tengist og unnt er að afla upplýsinga um. ORG-ættfræðiþjónustan ehf. býður einstaklingum upp á ættrakningar gegn vægu gjaldi. Framkvæmdastjóri og aðaleigandi ORG-ættfræðiþjónustunnar er Oddur Helgason ættfræðingur og fv. sjómaður. Að hans sögn hefur ORG-ættfræðiþjónustan fengið mikið af gögnum um Íslendinga og afkomendur þeirra á erlendri grund.


Hvað ber hæst í starfsemi ORG-ættfræðiþjónustunnar um þessar mundir?

"Við höfum nýlega tekið í notkun fullkominn tækjabúnað sem gerir okkur kleift að búa til ættartré og aðstoða fólk við gerð niðjatala og framætta. Búnaðurinn gerir okkur mögulegt að prenta út ættarhringi og ættartré en við höfum fengið prentara til þess. Þá fengum við fyrir skömmu hluta af ættfræðisafni 220 milljón manna frá Ameríku og stefnum að því að fá allt það safn. Við stefnum á samstarf við mörg af helstu skjalasöfnum landsins því umræddur grunnur nýtist í þeirra starfsemi. Við erum því að bæta þjónustu okkar við almenning."

Hver er fjöldi skráðra einstaklinga í ykkar grunni?

"Við erum ávallt að skrá inn í grunninn og nú höfum við skráð yfir 580.000 manns. Þar á meðal eru vel á annað hundrað þúsund manns sem ekki er að finna í erfðafræðilegum grunnum. Það verður þó að fara rétt að þessari skráningu og vinna traust og trúnað þjóðarinnar. Það verður að vera öruggt að slík gögn verði ekki misnotuð. Þess vegna ætla ég að setja myndir á heimasíðu fyrirtækisins, www.simnet.is/org, þar sem fólk getur séð hvernig starfsemin fer fram. Við reynum að virkja þjóðina og fólk úti um allan heim en starf okkar verður að vinna með þjóðinni."

Hvernig gengur starfsemi ORG-ættfræðiþjónustu?

"ORG-ættfræðiþjónusta er einstakt fyrirtæki hér á landi. Það hefur flesta starfskrafta - hérlendis og erlendis. Enginn hefur verið ráðinn, enginn rekinn og enginn hefur fengið laun hjá þessu fyrirtæki. Þetta er fyrst og fremst hugsjónastarf. Það hefur þó háð starfseminni að fólk hefur ekki komið á staðinn og kynnt sér hana ef það hefur áhuga en allir eru velkomnir. Ég byrjaði á þessu fyrir níu árum og ég læt þetta ganga. Starfsemin er nú orðin umfangsmikil en ég er með starfsemina í rúmlega 200 fermetrum. Þá er stefnt á það að gera fyrirtækið að sjálfseignarstofnun og stofna hollvinafélag þessarar elstu og almennustu fræðigreinar okkar Íslendinga."

Til baka í greinasafn