"Erum þegar búin að tengja
500 þúsund Íslendinga"


segir Oddur Helgason hjá ORG ættfræðiþjónustunni en hann ætlar að vera með kynningarbás á Handverki 2001 á Hrafnagili um aðra helgi og kynna þar ættfræðirannsóknir ættfræðiþjónustunnar.

"Veistu að við erum skyldir," sagði Oddur Helgason, ættfræðingur og einn af aðstandendum ORG ættfræðiþjónustunnar, þegar ég gekk inn í kjallarann á Hjarðarhaga 26 síðastliðinn laugardagseftirmiðdag til að forvitnast um starf þessara áhugasömu manna, sem lagt hafa eigur að veði og nótt við dag að kanna og rekja ættir landsmanna. Oddur settist síða við tölvu og eftir að hafa bætt nafni mínu og sonar míns í gagnagrunninn komu ýmsar tengingar í ljós. Þar á meðal frændsemi okkar Odds, sem varð til á 18. öld og einnig sú staðreynd að sonur minn á foreldra sem tengjast nokkuð fyrr eða í lok 17. aldar. Ekki náskylt að dómi almennings en ættfræðingar líta örðum augum á málin.

Hópurinn sem stendur að ORG ættfræðiþjónustunni er búinn að vinna saman í fimm ár og á þessum tíma náð að taka saman ótrúlega miklar upplýsingar um ættir íslendinga. Auk gagnagrunnsins, sem þegar er aðgengilegur á tölvuformi, er fjölda prentara og einnig handskrifaðra heimilda að finna í höfuðstöðvum ættfræðiþjónustunnar. "Ég hef alltaf verið dellumaður," segir Oddur "en þetta er eina dellan sem ég hef aldrei lagt til hliðar og losna sennilega aldrei við". Nú þegar eru um 500 þúsund einstaklingar tengdir í gagnasafninu og er heildar tengistuðull 83,27% og tengistuðull fyrir 20. öldina er 87,60%, sem veðrur að teljast hátt hlutfall. ORG ættfræðingar hafa lagt mikla áherslu á söfnun framætta og hafa við þá vinnu einkum stuðst við ritaðar heimildir fyrri tíma; heimildir á borð við kirkjubækur, manntöl, dómabækur, skiptabækur og skuldaskrár.

Ættfræði ekki metin til fjár

Að baki þessu er mikil vinna og Oddur segir að einungis sé unnt að vinna þetta á tvennan hátt. "Annars vegar að vinna með þjóðinni að söfnun heimilda á sama hátt og gert hefur verið um aldir eða nálgast málin á sambærilegan hátt og Íslensk erfðagreining gerir en til þess þarf mikla fjármuni." Oddur segir varasamt aðætla að gera ættfræðina að féþúfu og hafi umræður er spunnust í kjölfar vandræða Genelogia Islandorum skaðað fræðigreinina. "Ég held þó að þar sé um tímabundinn skaðleg áhrif að ræða. Menn fóru að meta ættfræðigrunna til fjár líkt og verðbréf og lentu í að fara yfir markið. Græðgi er aldri til góðs og getur skemmt fyrir sem hún vissulega gerði í áðurnefndu tilviki. Ættfræðin er þjóðararfur okkar Íslendinga og hún er líka þjóðarauður okkar lít og fiskurinn í sjónum. En það verður að vinna þetta á réttan hátt og menn verða að vinna saman." Oddur segir að þeir hjá ORG ættfræðiþjónustunni séu tilbúnir til samstarfs við alla sem geti veitt upplýsingar og vilji vinna að ættfræðiathugunum og rannsóknum af áhuga og á þeim grundvelli sem hún hafi veið unnin í gegnum aldirnar.

Ábúendatal Eyjafjarðar og upplýsingabás á Handverki 2001

Að undanförnu hafa Oddur og félagar hjá ORG ættfræðiþjónustunni verði að vinna að ábúendatali Eyjafjarðarsveitar eða þeirra þriggja hreppa sem nú mynda þetta sveitarfélag. "Við vinnum að þessu verkefni með samstarfi við Kristján Sigfússon og þegar er búið að yfirfara nokkuð af ábúendatölum þessara hreppa. Okkur skortir hins vegar enn talsvert af upplýsingum til þess að bæata þann gagnagrunn sem við erum að byggja upp til þess að unnt verði að búa til sem heillegasta mynd af ábúð á jörlum í þessu byggðalagi. Þess vegna ætlum við að vera til staðar á Handverkssýningunni á Hrafnagili 9. til 12. ágúst næstkomandi og kynna þetta verkefni og þá vonumst við til að fá upplýsingar frá fólki sem geta orðið okkur gagnlegar. Ég veit að það er til talsvert af fólki sem byr yfir vitneskju um þessi mál, bæði eldra fólk og einnig fólk sem hefur lagt sig eftir að huga að þessum málum. Ég vonast til þess að hitta sem flesta á sýningunni er geta lagt okkur nokkurt lið í þessu efni sem öðrum. Það koma á bilinu fimm til sjö þúsund manns á þessa sýningu og jafnvel mun fleira fólk ef vel tekst til þannig að ég má vænta þess að hitta fólk úr flestum landshlutum. Þetta gæti gefið okkur margvíslegar upplýsingar þótt aðalatriðið sé að afla frekari gagna um fólk í Eyjafirði vegna ábúendatalsins."

Fékk ómetanlegar upplýsingar um sjómannahelgina

Oddur kvaðst hafa verið með bás á kynningarsvæðinu á hafnarbakknaum í Reykjavík um sjómannahelgina í sumar. "Þar hitti ég margt fólk sem hafði greinilega áhuga á ættfræðinni. Ég rakti fólk saman og sýndi því hvað við erum að gera en fékk einnig margvíslegar upplýsingar sem nú hafa skilað okkur ótrúlegum gögnum. Annars er erfitt að lýsa þessu með orðum. Fólk verður hreinlega að koma og sjá á hvern hátt er unnið.

Samstarf við marga aðila

En ættfræðingarnir á Hjarðarhaganum sitja ekki einir við lestur handrita, innslátt gagna og tengingar þeirra. Þeir eiga samstarf við marga aðra aðila, jafn opinbera sem einkaaðila. Sem dæmi um þá má nefna erfðafræðinefnd, handritadeild Landsbókasafns - Háskólabókasafns, stofnun Árna Magnússonar, ýmis héraðsskjalasöfn, Torfa Jónsson, ættfræðing og Þór Magnússon fyrrum þjóðminjavörð. Einnig hefur ORG ættfræðiþjónustan átt samstarf og samvinnu við aðila vestanhafs þar á meðal ættfræðisafn mormóna í Utah vegna rannsókna á ættum Vestur-Íslendinga en ættfræðiþjónustan hefur viðað að sér miklum upplýsingum um vesturfarana og afkomendur þeirra í Bandaríkjunum og Kanada.

Verðum að vinna fræðanna vegna

Oddur hefur ákveðnar skoðanir á hvernig vinna eigi að þessum málum. "Það er ekki sama með hvað hugarfari ættfræðin er unnin. Maður verður að spyrja sjálfan sig hvort verið sé að gera þetta fræðigreinarinnar sjálfrar og á það höfum við lagt áherslu hér. Hér er um elstu og einnig almennustu fræðigrein Íslendinga að ræða og hún byggist á áhuga, þolinmæði, nákvæmni og vinnu. "Oddur segir það áhugamál ORG ættfræðiþjónustunnar að geta tekið að sér og sinnt verkefnum á sviði ættfræðirannsókna auk þess að vinna að upplýsingaöflun fyrir einstaklinga. Stofnun sem þessi þurfi að geta starfað á sjálfbærum grundvelli þótt áhugamennskan verði alltaf hluti ættfræðirannsóknanna. "Ég á mér þann draum," sagði Oddur "að ORG ættfræðiþjónustan geti orðið að sjálfseignastofnun þar sem bæði opinberir aðilar og almenningur eiga að geta haft aðgang að þeim upplýsingum sem þar eru að finna. ORG ættfræðiþjónusta var stofnuð með því markmiði að allir Íslendingar geti vitað um ættir sínar á hóflegu verði." Oddur kvaðst í lokin vilja beina því til fólks að lata vita og koma upplýsingum á framfæri telji það sig finna villur í bókum þar sem ættir fólks eru til umfjöllunar. "Við höfum þegar fengið mikið af ábendingum um villur og við viljum frekar að tíu manns láti okkur vita af sömu villunni en að við fáum engar upplýsingar um hana. Í því sambandi vil ég benda fólki á vefsíðuna okkar en þar er einnig að finna ýmsar upplýsingar um ættfræðiþjónustuna. Þar með var Oddur Helgason ættfræðingur staðinn upp frá skrifborðinu og farinn yfir að prentaranum sem hafði prentað ættartengsl okkar auk fleiri tengsla á meðan við spjölluðum yfir kaffibolla.

Til baka í greinasafn