Ættfræðin er þjóðareign

-- segir Oddur Helgason ættfræðingur sem vinnur að skráningu allra Íslendinga frá upphafi byggðar.

Oddur Helgason er einn ötulasti ættfræðingur þjóðarinnar. Síðustu árin hefur Oddur helgað ættfræðinni öllum sínum tíma og hefur hann ásamt samstarfsmönnum sínum safnað á einn stað ótrúlega miklum upplýsingum um ættir Íslendinga frá upphafi byggðar. Tilveran heimsótti Odd á vistlega vinnustofu hans í Vesturbænum. "Markmið okkar er að safna upplýsingum á einn stað og tengja saman alla þá Íslendinga og allt það fólk sem tengist Íslendingum. Það er nauðsynlegt að hugsa ættfræðina í öldum, bæði fram og til baka, og það getur vel hugsast að eftir kannski 200 ár langi fólk að kynna sér ættir sínar. Þá kemur kannski í ljós að það á ættir að rekja til útlanda en við vinnum einnig markvisst að því að safna upplýsingum um útlendinga sem búa hérlendis og vita um sínar ættir. Þetta er auðvitað mikið verk og verður aldrei unnið nema í samvinnu við þjóðina," segir Oddur.

Bjartsýnn að eðlisfari

Á vinnustofunni gefur að líta mikið ættfræðibókasafn auk margs konar gagna sem Oddur hefur viðað að sér héðan og þaðan. "Grunnurinn er kominn í rúm 430 þúsund nöfn en gögnin hérna inni gera okkur kleift að fara mun hærra. Það er vel mögulegt að byggja ættfræðigrunn með yfir milljón Íslendingum og eru þá Vestur-Íslendingar ekki taldir með. Við höfum safnað vönduðum skrám yfir þá sem fluttu til Vesturheims og erum auk þess með skrár yfir núlifandi Vestur-Íslendinga," segir Oddur. Ættfræði er nákvæmnisverk og þegar Oddur er inntur eftir því hvort það sé vinnandi vegur að ljúka svo viðamikilli skráningu kveður hann engin vandkvæði á því. "Ég hef alltaf verið bjartsýnn að eðlisfari og í sannleika sagt tel ég víst að okkur muni takast þetta. Við gerum þetta ekki hjálparlaust og þurfum að láta styðja við bakið á okkur." Útgáfa ættfræðigagna er ekki í bígerð hjá Oddi og samstarfsmönnum hans en með honum starfa ýmsir ættfræðiáhugamenn og má þar nefna Hálfdán Helgason og Gunnar Atlason sem eru tengiliðir við V-Íslendinga. "Við stefnum ekki á slíkt en ég sagði einhvern tíma að tilgangurinn með grunninum væri meðal annars að gera fólki kleift að kynna sér ættir sínar á hóflegu verði. Grunnurinn mun einnig nýtast við gerð ábúendatala og starfstala svo eitthvað sé nefnt," segir Oddur.

Samstarf við þjóðina

Ættfræðin er langt frá því að vera á undanhaldi og bendir Oddur á vaxandi vinsældir ættarmóta víða um land því til sönnunar, auk þess sem gagnagrunnsmálið svokallaða hefur einnig ýtt undir áhugann. Ættfræðifyrirtæki Odds tengist ekki gerð stóra gagnagrunnsins enda kveðst hann hafa ýmislegt við hann að athuga. "Menn verða alltaf að vinna slíkan ættfræðigrunn í samstarfi við landsmenn auk þess sem gott samband við Persónuvernd, sem áður hét Tölvunefnd, er ein af forsendum þess að slíkt takist. Hvort tveggja hefur okkur tekist prýðilega hér. Það hefur alltaf verið mín skoðun að það verði að búa til tvo ættfræðigagnagrunna og byggja þá þannig upp að þeir nýtist fyrir tilætluð verk. Mér hefur alltaf þótt skrýtið að erfðagreiningarfyrirtæki séu að búa til ættfræðigrunn þegar til er í landinu erfðafræðilegur ættfræðigrunnur, sem notaður hefur verið til læknisfræðilegra rannsókna í fjörutíu ár. Af hverju er hann ekki notaður í erfðafræðinni? Ég get ekki séð rökin fyrir því að erfðagreiningarfyrirtæki eigi að vera með ættfræðigrunn innanhúss því þá er meira en lítið hætt við því að dulkóðunin verði einskis nýt. Að mínu viti á erfðafræðilegur ættfræðigrunnur aldrei að fara fyrir sjónir almennings," segir Oddur. Sönn ættfræði er hugtak sem er Oddi hugleikið og hann segir oft misbrest á því hérlendis að menn tileinki sér rétt vinnubrögð þegar ættfræðin er annars vegar. "Menn verða að átta sig á því að hin sanna ættfræði felur í sér að menn nenni að skoða hvern einasta blaðsnepil og kanni hverja heimild til hlítar. Ég fullyrði einnig að sá sem vinnur sanna ættfræði hefur aldrei haft neitt upp úr því utan skemmtunina og ríkidæmið felst einvörðungu í ánægjunni að loknu góðu dagsverki. Mér hefur aldrei komið til hugar að láta meta ættfræðisafn mitt til fjár enda tel ég það ómetanlegt. Ef okkur tekst hins vegar að gera þennan grunn þá fer hann í eigu þjóðarinnar og nú vantar ekkert nema smáaura til að klára þetta."

Skemmtunin fólgin í grúski

"Ættfræðin er og á að vera þjóðareign, rétt eins og fiskurinn í sjónum. Ég er hins vegar reiðubúinn að vinna með hverjum þeim sem vill vinna ættræðina á þessum nótum og ef allt gengur eftir stefnir í að við verðum með einn mesta ættfræðibanka þjóðarinnar hér á einum stað." Töluvert hefur verið talað um að ættfræðin verð sett á Netið og um næstliðin áramót boðaði Friðrik Skúlason og Íslensk erfðagreining hugmyndir um slíkt. "Það má setja upplýsingar sambærilegar við það sem er í þjóðskrá á Netið en það er lykilatriði að fólkið í landinu vinni sjálft við ættfræðina. Það má ekki takað grúskið frá fólki -- í því er mesta skemmtunin fólgin," segir Oddur Helgason og bætir við hann vilji nota tækifærið og þakka þeim sem hafa stutt við bakið á sér um leið og hann hvetur fólk til að senda sér leiðréttingar og heimsækja heimasíðu sína (simnet.is/org) á Netinu.

Til baka í greinasafn