"Við þurfum enga ættfræðikvótakónga
á Íslandi"

Ættfræði er snemma getið í bókmenntum okkar Íslendinga, því í fyrstu málfræðiritgerð Snorra-Eddu, sem talin er frá miðri 12. öld, er hún nefnd meðal þess sem þá hefur verið ritað á íslensku. Á síðari árum hefur þessi áhugi farið vaxandi og fáir munu þeir vera, sem ekki vita eitthvað um forfeður sína og -mæður. Sigurður Ægisson heimsótti ættfræðing á dögunum til þess að forvitnast um hvernig málin stæðu um þessar mundir, ekki hvað síst með tilkomu erfðarannsóknafyrirtækja hér á landi í huga, en þau hafa sem kunnugt er tekið ættfræðina í þjónustu sína.

ORG-ættfræðiþjónusta ehf. er til húsa á Hjarðarhaga 26 í Reykjavík. Hún er íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í ættrakningum og söfnun allra þeirra ættfræðigagna sem Íslendinga varðar og þar með eru talin gögn um Vestur-Íslendinga. Fyrirtækið í núverandi mynd var stofnað fyrir næstum tveimur árum. Framkvæmdastjóri og aðaleigandi ORG-ættfræðiþjónustunnar er Oddur Helgason ættfræðingur og fyrrverandi sjómaður. Hann er gjarnan kallaður "Oddur spekingur" og hefur lengi fengist við ættfræði."Jú, það er alveg rétt. Ég var alinn upp hjá afa og ömmu, því faðir minn fórst þegar ég var barn að aldri," segir Oddur. "Þegar ókunnugt fólk kom í heimsókn var ævinlega fyrsta spurningin: "Hverra manna ertu?" Og vegna þess að ég hef gott minni fór ég að safna þessu í kollinn og þar hefur það verið síðan og við þessar upplýsingar bæst smátt og smátt."

Ættvísi nauðsynleg fyrrum
Oddur fær sér í nefið og heldur svo áfram: "Það verða allir ættfræðingar einhvern tímann á ævinni. Ég sá menn í sjónvarpinu um daginn. Þeir voru spurðir að því af hverju ættfræðiáhugi Íslendinga stafaði. Sjálfur hafði ég velt þessari spurningu fyrir mér löngu áður, en áttaði mig ekki á svarinu fyrr en ég fór í gamni mínu að lesa Grágás, elstu lögbók Íslendinga. Í raun og veru urðu menn á þeim tíma að vita eitthvað um ættvísi, því að ef menn skoða Grágás og lesa hana kemur í ljós, að þetta er með elstu félagsmálapökkum sem skráðir eru. Menn höfðu framfærsluskyldu í 5. lið. Og í Vígslóða er talað um vígsbætur í 5. lið. Og hvað snerti erfðamál þurftu menn að vita um ættir sínar. Allt ber þetta því að sama brunni." Oddur segir að það hafi löngum verið áhugaefni og kappsmál ORG-ættfræðiþjónustunnar að koma á tölvutækt form öllum þeim ættarfróðleik sem mögulegt er að nálgast og gera þannig sem flestum kleift að fá fróðleik um ættir sínar, svo og tengsl sín innbyrðis.
"Hingað kemur mikið af fólki til að aðstoða okkur við söfnun upplýsinga og gagna og að auki eru fjölmargir sem senda okkur slíkt. Við höfum ekki milljónir á bak við okkur, eins og sumir, en hér inni er að finna margt sem hvergi er til annarsstaðar, s.s. handrit víða að á landinu, sem við höfum fengið send. Það kemur næstum eitthvað hingað hvern einasta dag. Ómetanleg hjálp þessa fólks hefur gert safn ORG að einu yfirgripsmesta ættfræðisafni landsins." Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður og einn af samstarfsmönnum Odds, segir ættfræðinga vera hógværasta og kröfuminnsta fólk sem þekkist. Það taki við því sem að því sé rétt, heimti ekkert og vinni störf sín í þögn. Veigamikil heimildagögn, s.s. prentaðar bækur um ættfræði, ævisögur og héraðsrit, vanti mjög í handbókasöfn opinberra safna, og því sé ættfræðibókasafn ORG ákaflega mikilvægt.

Menntahroki, sjálfselska og græðgi
Oddur bendir á, að allir sem sendi fyrirtækinu gögn séu í raun og veru að vinna saman að ættfræðinni.

"Það sem er að eyðileggja íslenska ættfræði í dag er menntahroki, sjálfselska og græðgi, því það er auðséð á öllu að menn hafa passað sig á því að fara ekki í hinn sanna ættfræðigeira, heldur sniðganga hann alveg en hirða þó öll gögn frá honum. Málið er, að það verður að gera þetta vel, það má ekkert klikka. Það verður að fá hæfasta fólkið til að vinna að þessu, og það er þjóðin sjálf. Það verður m.ö.o. að vinna þetta með fólkinu í landinu og fyrir fólkið í landinu, eins og ég hef sagt áður í blaðaviðtölum. Menn verða að átta sig á því, að þetta snýst ekki um Friðrik Skúlason, mig eða Þorstein Jónsson. Þetta snýst um ættfræði."

Tveir ættfræðigrunnar
"Og annað er svo hitt," heldur Oddur áfram, "að það verða að vera tveir ættfræðigrunnar í landinu, annar erfðafræðilegur og hinn sagnfræðilegur. Munurinn á þeim er sá, að í þeim erfðafræðilega kemur inn allur blóðskyldleiki en í hinum sagnfræðilega koma kjörbörn á kjörforeldra, sem er hin lagalega hlið. Ég er alveg stórefins um það, að erfðafræðilegi grunnurinn ætti að fara á Netið. Fólk á ekkert að hafa aðgang að honum, því í honum eru upplýsingar sem eiga ekkert að liggja á lausu fyrir aðra. Menn verða að átta sig á því, að ættfræði er stýrikerfið á allt hitt. Það er alveg sama hvað það er. Áður en ég læt sannfærast verð ég að fá að sjá hvað þeir ætla að dulkóða, þegar eru keyrð saman ættfræðigrunnurinn og heilsufarsupplýsingar.

Það sem við erum að gera er allt annað en erfðarannsóknafyrirtækin eru að gera. Við erum að skrifa sögulega ættfræði. Eins og ég hef sagt áður í fjölmiðlum er hægt að mestu leyti að skrifa sögu Íslendinga í gegnum ættfræðina, því yfirleitt gerist mestallt í kringum manninn. Einungis hamfarir og annað slíkt verður út undan. Svo að það verður að skoðast í því ljósi."

Búið að segja of mikið af því sem stenst ekki
Hjá ORG hefur aðaláherslan verið lögð á söfnun framætta og hefur þar verið stuðst við ritaðar heimildir fyrri tíma, s.s kirkjubækur, manntöl, dómabækur, skiptabækur, skuldaskrár og legorðsreikninga. Mikil vinna hefur verið lögð í að afla gagna, ekki síst handrita, alls staðar að á landinu, og á ættfræðiþjónustan ORG nú mikið og gott bókasafn sem að mörgu leyti er einstakt í sinni röð, að sögn Odds.

"Það var hringt í mig um daginn og mér boðið að kaupa rit um framættir Íslendinga, gefið út af Háskóla Íslands. Ég er mjög ánægður með það ef háskólinn ætlar að fara að gefa út slíkt rit, en ég er ekki viss um að þeir sem að verkinu standa hafi áttað sig á því, að hér er um að ræða hátt í 300 þúsund bindi, því það verður að gefa út framættir allra Íslendinga, ef þetta á að standa undir nafni. Ég veit ekki hvort það er einhver sölutækni sem veldur því að menn fara þessa leið í auglýsingunum, en hitt er ljóst, að það verður að kynna hlutina rétt; það er það sem vantar svo mikið.
Ég var t.d. að hlusta á útvarpið um daginn, þar sem var verið að ræða við starfsmann Vesturfarasetursins, sem sagði að Þorfinnur karlsefni og Guðríður Þorbjarnardóttir hefðu líklegast farið frá Hofsósi. En það auðvitað stenst ekki. Þorfinnur hefur farið einhvers staðar úr Breiðafirði eða frá Snæfellsnesi. Þá sat Guðríður, ekkja Þorsteins Eiríkssonar, í Grænlandi. Þau kynntust þar. Svo að hitt stenst nú ekki. Auk þess var engin sigling frá Hofsósi á þeim tíma, svo vitað sé. Aðalhöfn Skagfirðinga var Kolbeinsárós, sem nú heitir Kolkuós, en eins gæti hafa verið farið frá Reykjadiski eða Sævarlandsvík. Svo er ekkert vitað hvaðan Guðríður hefur lagt upp, þegar hún fór til Rómar. Við megum ekki eyðileggja ættfræðina og bara yfirleitt alla sagnfræði Íslendinga, með því að fara ekki rétt með. Það er búið að segja of mikið af því sem stenst ekki."

Búið að skrá næstum 400 þúsund Íslendinga
Oddur segir að ORG hafi átt gott samstarf við ýmsa opinbera aðila og einkaaðila. Megi þar nefna erfðafræðinefnd, handritadeild Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Héraðsskjalasafn Skagfirðinga, Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar, Gunnlaug Haraldsson þjóðháttafræðing, Þór Magnússon, fv. þjóðminjavörð, Ragnar Ólafsson ættfræðing, Nelson Gerrad, ættfræðing í Kanada, og Hálfdan Helgason. Mikið hafi einnig verið stuðst við safn mormóna, "Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu", á Íslandi. Og gott samstarf hafi einnig verið við þá sem vinna að skráningu ábúendatala Eyfirðinga, Landeyinga og borgfirskra æviskráa auk ættfræðinga og áhugafólks um ættfræði víðsvegar um land.

"Ég hef einnig átt mjög góð samskipti við tölvunefnd. Ef kemur til mín manneskja, sem er kjörbarn, og biður mig að rekja ættir sínar eftir blóðforeldrum, athuga ég alltaf hvort það sé rétt, og læt svo viðkomandi manneskju skrifa undir að það sé að beiðni viðkomandi aðila. Við höfum ekki leyfi til að gera þetta annars heldur einungis að setja kjörbörn á kjörforeldra.

Það er ekki sama með hvaða hugarfari þú vinnur ættfræðina. Er það vegna hennar sjálfrar, eða af öðrum hvötum? Sjálfur held ég að það verði að vinna ættfræðina hennar sjálfrar vegna. Og það er gert hér."

Ættfræðin er elsta og almennasta fræðigrein Íslendinga, að sögn Odds, og hún byggist á áhuga, gífurlegri þolinmæði, nákvæmni og minni.

"Það er okkur hjá ORG afar mikilvægt að skrá allt rétt. Fyrir kemur að prentvillur slæðast inn í prentaðar heimildir sem við notum. Okkur þætti því gríðarlegur fengur að því að þeir áhugamenn um ættfræði, ættingjar og aðrir sem vita af slíkum villum í heimildum, sendi okkur línu og bendi á villurnar og leiðrétti þær. Því mikilvægt er að þau gögn sem skráð eru séu rétt. Í ættfræðivinnu er stuðst við skrifaðar heimildir, kirkjubækur, blaðagreinar og ættartölur sem gefnar hafa verið út. Þótt rétt sé vitnað í heimild kann heimildin að vera röng.

Við höfum gögn til að vinna úr næstu árin. En þessa dagana erum við að slá inn upplýsingar og samhæfa þær. Við erum að verða komnir með 400 þúsund Íslendinga. Það verður nefnilega að hafa í huga með þessa grunna, að nauðsynlegt er að vita hver tengistuðullinn er, þ.e.a.s. tengingar milli manna. Það er ekki nóg að vera með fjöldann. Við erum að komast í 80% tengistuðul, sem er mjög gott. Það verða alltaf lausir endar og annað, en ég hugsa að það sé hægt að komast í 90%." Verkefni af ýmsum togaru af ýmsum toga, verkefnin sem við fáum," segir Oddur. "Nýjast er það, að haft var samband við okkur fyrir skemmstu og við spurðir, hvort við gætum hugsað okkur að kynna ættfræði í grunnskólum landsins, sem er auðvitað hið besta mál og sjálfsagt. Og fyrir ekki löngu fengum við lista frá Hamborg í Þýskalandi, sem hafði að geyma skuldir manna við Grundarfjarðarverslun árið 1557-1558. Við vorum beðnir um að finna upplýsingar um það fólk.

Annars hafa verið miklar viðræður við sögufélög, fræðafélög og hreppsnefndir víða um land um að vinna ábúendatöl með heimamönnum; það er afar mikilvægt. Við eigum hér grunna af heilu sýslunum, sem eru orðnir klárir með ábúendatöl. Þar er miðað við árið 1703 og allir niðjar teknir með.

Einnig höfum við mikið af gögnum um núlifandi Vestur-Íslendinga, sem við munum vinna úr í samvinnu við Hálfdan Helgason, sem hefur sérhæft sig í upplýsingum um Vestur-Íslendinga."

Við þetta má svo bæta, að þegar blaðamaður var í heimsókn sat Torfi Jónsson, ættfræðingur og samstarfsmaður Odds, við tölvuskjá og var þar að yfirfara og búa undir útgáfu handrit að Skarðstrendingasögu og Grímseyingasögu eftir Gísla Konráðsson.

Ættfræðirannsóknamiðstöð Íslands
Að sögn Odds hefur aldrei verið greitt kaup hjá ORG. Að ættfræðigrunninum sé og hafi verið unnið af hugsjón, ættfræðinnar vegna og hennar eingöngu.

"Kona mín og ég höfum fjármagnað þetta ein hingað til, en nú er svo komið að eitthvað verður að koma til meira. Þótt ég hafi verið í sveit í Ljósavatnsskarðinu, eins og Jón vinur minn Ragnarsson, þykir mér leiðinlegra ef ég verð að láta þetta fara úr landi, því ég held að við séum að vinna mjög gott verk. En komi til þess að ég verði að láta fyrirtækið þá fer það utan, það er á hreinu. Ég ætla ekki að horfa upp á það hér.

Helst myndi ég vilja að þetta yrði gert að ættfræðirannsóknamiðstöð Íslands í eigu þjóðarinnar. Það hefur alltaf verið draumur minn. Skoði menn heimasíðuna (www.simnet.is/org) má finna þar ýmislegt nánar um þetta."

Tek ekki þátt í neinum sandkassaleik
Oddur segir að ættfræði sé þjóðararfur okkar Íslendinga. En ættfræði sé líka annað; hún sé það sama og fiskurinn í sjónum, þjóðarauður okkar Íslendinga. Nú verði menn að passa sig á því að vinna þetta sem réttast og auðvitað eigi allir að vinna saman. Það sé hann margbúinn að segja, bæði í útvarps- og blaðaviðtölum. Hann hafi ætlað að reyna að sætta menn eins og hann gæti, en hafi einfaldlega gefist upp á því.

"Ég ætla ekki að fara að blanda mér í þennan sandkassaleik, þessi málaferli og annað, ég ætla algjörlega að halda mig utan við þau, en það væri mjög gott ef menn kynntu sér hvernig ættfræði hefur verið unnin gegnum aldirnar. Miðað við það sem ég hef séð vita menn lítið um þau efni. En vilji fólk kynna sér þá hluti eru þeir velkomnir til okkar. Því ef maður er að vinna ættfræði verður að skoða hvern einasta blaðsnepil.

"En við þurfum enga ættfræðikvótakónga á Íslandi."

Til baka í greinasafn