Ættfræði verður aðeins unnin með fólkinu í landinu

Á kontór í vesturbænum í Reykjavík situr fyrrverandi sjómaður og grúskar daglangt í ættfræði. Skapti Hallgrímsson leit inn hjá Oddi Helgasyni ­ en fékk sér ekki í nefið.

ODDUR Friðrik Helgason, ættfræðingur og fyrrverandi sjómaður ­ eins og hann kýs að kalla sig ­ hefur lengi grúskað í fræðunum, en ár er nú liðið síðan hann stofnaði fyrirtækið ORG ættfræðiþjónustu. Hann segir Íslendinga hafa mikinn áhuga á ættfræði, yngri kynslóðina meira að segja ekki miklu minni en eldra fólk, þótt það kunni að koma mörgum á óvart, og telur ástæður þess mega rekja til þess hve ættarmót eru orðin algeng.

"Ættfræðingur þarf auðvitað að hafa mikinn áhuga á ættfræði en það er ekki nóg. Hann verður líka að hafa gott minni, vera í góðu sambandi við fólk úti um allt land ­ þjóðina ­ og síðast en ekki síst verður hann að vera mjög þolinmóður," segir Oddur og fær sér í nefið, þegar blaðamaður sest að spjalli við hann. Svo bætir hann við: "Ættfræði verður aldrei unnin á Íslandi nema í góðu sambandi við fólkið. Og ég get sagt þér það að ég hef gagn af hverjum einasta manni sem kemur eða hringir í mig. Hverjum einasta. Það getur alltaf eitthvað bæst við."

Oddur og Tómas V. Albertsson sitja sveittir á kontórnum að Hjarðarhaga 26; eru að safna í ættfræðigrunn sinn. "Við erum mest að vinna um þessar mundir milli manntalsins 1703 og 1900," segir Oddur. Þeir eru lítið sem ekkert farnir að stunda viðskipti enn, enda segir Oddur að þegar ættfræði sé annars vegar verði fræðin alltaf að vera númer eitt. Fjármálin megi aldrei vera ofar á listanum en í öðru sæti! Peningar eru sem sagt ekki farnir að streyma í kassann, þótt þeir hafi unnið eina og eina ættartölu, en þeir kvarta þó ekki. Og svo hafa þeir þurft að fjármagna kaup á fjölda bóka. Blaðamaður spyr Odd þar af leiðandi á hverju hann lifi; hvernig dæmið gangi eiginlega upp. Hann fær sér aftur í nefið áður en hann svarar. "Með hjálp ýmissa aðila. Besta sagan sem ég hef heyrt er úr heitum potti norður á Akureyri. Þeir sögðu þar að ég ætti svo ríka konu! Hún er að vísu rík; af skilningi á því sem ég er að gera og er minn besti stuðningsmaður. Ég get ekki neitað því að ýmsir hafa hjálpað mér og marga hef ég talið upp hér og þar síðan ég byrjaði á þessu. En reksturinn höfum við líka fjármagnað með lánum."

Oddur bauð upp á kaffi og vínarbrauð og talið snerist um stund að mat. "Það vill svo til að ég þarf líkamlegt fóður ekki síður en andlegt og ég er ófeiminn við að upplýsa að vinir mínir og venslamenn í Kjarnafæði á Akureyri hafa sent mér kjötflís við og við."

Oddur segir að haldi fólk að það sé einhver gullnáma að stunda ættfræði hérlendis ­ að um uppgrip sé að ræða ­ sé það misskilningur. En hann vonast vitaskuld til þess að einhvern tími þéni hann eitthvað á fyrirtækinu og segir að í framtíðinni muni hann vinna bæði fyrir einstaklinga og bókaútgefendur. "Áhugi á ættfræði er mikill og hefur aukist gífurlega eftir að ættarmótin urðu svo algeng sem þau eru. Og eftir að umræðan um erfðafræðina varð jafn mikil og raun ber vitni hefur áhuginn blossað upp. Ég vann svolítið með unglingum fyrir einum þremur árum og þeir virðast hafa mikinn áhuga á ættfræði. Ég er viss um að það er ættarmótunum að þakka."

Ættfræði hefur mikið verið rædd í tengslum við gagnagrunn á heilbrigðissviði. Oddur segir fyrirtæki sitt ekki tengjast gerð slíks gagnagrunns. "Að minnsta kosti ekki eins og er. Íslensk erfðagreining hringdi reyndar og vildi fá frá mér 100 ættartölur en mér láðist að nota aðferð sem hann afi þinn, Skapti í Slippnum á Akureyri, nefndi einu sinni í gamla daga þegar ég vann hjá honum." Oddur fær sér enn í nefið og hermir svo eftir afa blaðamanns: "Drengir, drengir. Það er um að gera að setja nógu hátt verð upp, þá er hægt að slá svo vel af og þá eru allir ánægðir!" Það varð ekkert af viðskiptunum við Íslenska erfðagreiningu þótt uppsett verð hafi ekki verið nema helmingur af því sem við vitum að menn hafa verið að taka fyrir svona vinnu," segir Oddur.

Hann nefnir að líkt og heilsufarsupplýsingar um landsmenn liggi ættfræðiupplýsingar hvarvetna "og ótrúlegasta fólk er að vinna að þessu úti um allt land. Samantekt ættfræðigagna verður aldrei gerð nema í samstarfi við þjóðina og þolinmæði er eitt lykilatriðanna. Það þarf að kanna hversu traustar heimildir eru, ég tala nú ekki um ef heimildum ber ekki saman, vegna þess að ekkert er varið í ættfræðiupplýsingar ef þær eru ekki réttar þegar upp er staðið. Ég hvet þess vegna fólk endilega til að hafa samband við mig ef það veit um villur í einhverjum ritum um sjálft sig eða aðra." Oddur fær sér nokkur korn til viðbótar í nefið og segir svo: "Það er best að fá hæfa menn úr hverju héraði til að vinna þetta með okkur og á það verður mikil áhersla lögð."

Oddur segir talið að um tvær milljónir Íslendinga hafi fæðst og að í gagnagrunn mætti ná um einni milljón manna. Hann hefur safnað miklu til þessa og segir að í gagnagrunni fyrirtækisins séu nú t.d. ættir flestra þeirra sem fóru vestur um haf á sínum tíma.

Oddur er í sambandi við Eirík Eiríksson frá Dagverðargerði, fyrrverandi bókavörð Alþingis, "sem er með alla Austfirðinga í kollinum," eins og Oddur segir, Guðmund Hansen, fyrrverandi skólastjóra, sem hann segir þekkja Sturlungu fram og til baka og Ragnar Ólafsson, fyrrverandi deildarstjóra á Skattstofunni, sem sé sérfræðingur sinn í Borgfirðingum en allir voru staddir á skrifstofu Odds þegar ljósmyndarann bar að garði. Þá segist Oddur vera í sambandi við erfðafræðinefnd, handritadeild Landsbókasafns, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Héraðsskjalasaöfn Borgarfjarðar og Skagfirðinga, Gunnlaug Haraldsson þjóðháttarfræðing og Nelson Gerrad, ættfræðing í Kanada. Einnig þá aðila sem vinna að skráningu ábúendatala Eyfirðinga, Landeyinga og Borgfirskra æviskráa auk ættfræðinga og ættfræðiáhugafólks um allt land, sem enn eigi eftir að fjölga.

Til baka í greinasafn