Hverra manna ert þú?

Tilgangurinn með grúskinu er að svala forvitninni um hvernig maður er skyldur öðru fólki, sagði Oddur Friðrik Helgason ættfræðingur þegar Gunnar Hersveinn heimsótti hann. Oddur sér skyldleikann líka á töktum, útliti og hreyfingum. Hann er hreinræktaður ættfræðingur. 

LYFTAN hífar mig upp á fimmtu hæð. Íbúð ættfræðingsins er opin og hann kallar úr eldhúsinu:

"Komdu inn, ég er að laga kaffið."

Bækur prýða veggi; Merkir Íslendingar, Flateyjarbók, Íslenskt mannlíf, Þrasastaðaætt ... Oddur Friðrik Helgason kemur úr eldhúsinu og skimar um: "Hvar er neftóbakið? Ég verð vitlaus ef ég finn ekki neftóbakið, allir alvöru ættfræðingar taka í nefið."
Oddur hefur unnið við tölvuskráningu ættfræðiheimilda og á ásamt félögum sínum Reyni Björnssyni og Guðmundi Sigurði Jóhannssyni ættfræðingi á Sauðárkróki eitt stærsta ættfræðisafn landsins í tölvum, samstarf sitt kalla þeir O.R.G. Ég ákveð að vera á undan honum og spyr: "Hverra manna ert þú?"

"Ég er Norðlendingur og Sunnlendingur og get talið mig af mörgum ættum; Hvassafellsætt, Weldingætt, Stóradalsætt í Eyjafirði, Ásmundarætt á Svalbarðsströnd, Kortsætt og ég get eins og allflestir Íslendingar rakið ættir mínar til Jóns Arasonar," svarar hann og rýkur svo að tölvunni sinni og spyr um fæðingardag minn og ár.

"Sæll frændi," segir hann eftir stutta stund, "þú ert af Weldingætt eins og ég. Hér í tölvunni er ég með 2.881 af forfeðrum þínum. Við erum fimmmenningar. Ég er með eitt mesta safnið af framættum Íslendinga." Hann bendir á nafnið Henrik Welding, f. 1645, og Loft "ríka" Guttormsson og fullyrðir að flestallir Íslendingar séu af honum komnir.

Dellan sem aldrei dvínaði

Oddur vinnur heima hjá sér að ættfræðirannsóknum, "en í sumar stóð ég fyrir flestum nýbyggingum í Reykjavík," segir hann, "já, vinur minn." Og bætir við eftir stutta stund: "Ég og bróðir minn, Sigurður Már Helgason, sjáum um smíðavelli borgarinnar."
"En hverjir voru foreldrar þínir?" spyr ég. "Sigurlína Pálsdóttir frá Vatnsenda í Eyjafirði og Helgi Friðrik Helgason frá Tungu í Reykjavík, sonur Helga Jónssonar í Tungu en kona hans var Friðrika Þorláksína Pétursdóttir, faðir hennar var af Barna-Hjálmarsætt og móðir af Welding ..."
"Hvaðan er þessi ættfræðiáhugi þinn kominn?" spyr ég til að stöðva hann.
"Ég er alinn upp við áhugann hjá afa og ömmu en þau voru Páll Jónsson á Vatnsenda og Stefanía Einarsdóttir," svarar hann, "ég hef fengið margar dellur en þessi hefur aldrei dvínað."
"En hvað er svona skemmtilegt við þetta?" spyr ég.
"... veit það ekki," svarar hann og víkur talinu vestur: "Við erum með ættir 50% vesturfaranna og enn safnast í sarpinn því ég er að vinna með Eiríki Eiríkssyni frá Dagverðargerði að Austfirðingaskrá og svo að Þingeyingaskrá Konráðs Vilhjálmssonar frá Hafralæk.

Áhuginn aldursmerki, ekki ellimerki

"Þegar ég kem í mannfagnað get ég séð hvernig fólk er skylt," fullyrðir Oddur Friðrik, "ég sé það á töktunum. Ég get nefnt þér dæmi: Langafi minn Jón Jónsson á Vatnsenda í Eyjafirði, ömmubróðir Jóhannesar Geirs listmálara, hafði kæk. Margir sem fá sér sæti kippa buxnaskálmunum aðeins upp, en langafi kippti alltaf tvisvar upp með vinstri hendi. Ég tók eftir því að Jóhannes Geir gerði þetta líka. Sami kækurinn," segir hann, "það er margt líkt með skyldum, bæði hreyfingar og útlit."
Oddur segist oftast spá í hverra manna fólk er þegar hann hittir það og fólk spyrji hann líka og mikið sé hringt. "Áhugi Íslendinga á ættfræði er vaxandi vegna ættarmótanna," segir hann. "Áhuginn vex eftir því sem fólk eldist."
"Það hefur verið sagt að áhugi á ættfræði sé ellimerki," segi ég.
"Aldursmerki," svarar Oddur, "já, við getum sagt það, aldursmerki."
"En hver er tilgangurinn með grúskinu?" spyr ég.
"Að svala forvitninni," svarar hann, "um hvernig maður er skyldur öðrum."

"Amma hans og langamma mín voru systur."
Nú hringir dyrabjallan og hann svarar í dyrasímann, "Ásdís?" "Það er ljósmyndarinn," segi ég.
Eftir fimm hæða tröppugöngu birtist ljósmyndarinn. "Hverra manna ert þú," spyr Oddur og þarf að sjálfsögðu að fá full nöfn foreldra.
"Sæl frænka," segir hann svo, "við erum saman af þriðja og fjórða lið. Sigurlína mamma mín heitir eftir Sigurlínu langömmu þinni. Oddur hleypur að tölvunni og byrjar að fletta upp og kalla fram: "Hér er ég með nöfn 5.183 forfeðra þinna. Svona erum við skyld, við erum bæði af Hvassafellsættinni."
Eftir drykklanga stund hætti ég að geta fylgst með samræðum þeirra og verð sennilega undarlegur á svipinn eða þangað til Ásdís segir: "Amma hans og langamma mín voru systur," og bendir á mynd uppi á vegg. "Það er óhemjumikið af leikurum af þessari ætt," segir Oddur.

Vill gera Íslendingum kleift að þekkja framættir sínar
Í íbúðinni má finna bækur á ólíklegustu stöðum. "Þetta er kassi fullur af ættarmótum," segir Oddur. "Það eru bækur og handrit út um alla íbúð, meira að segja undir hjónarúminu, en konan mín er fremsti stuðningsmaðurinn minn í þessu."
Hann segir markmið sitt að gera Íslendingum kleift að vita um framættir sínar, og nú hringir síminn, einhver að spyrja. Hann tekur niður nafn og heimilisfang þess sem leita á að.
"Er ættfræðiáhuginn ættgengur?" spyr ég.
"Já, það getur meira en verið," svarar hann og segir svo: "Að minnsta kosti koma ættir Íslendinga saman innan við 10. lið og einstaklingar geta yfirleitt rakið þær saman í 7. og 8. lið."
"Lestu aðrar bækur en um ættfræði?" spyr ég.
"Ekki lengur," svarar hann, "en ég byrjaði snemma að lesa mikið."

Á leiðinni út nefnir Oddur ýmis skjöl og tölur og skrár og fylgir mér alveg inn í lyftuna en að lokum klippa dyrnar á nöfnin úr ættarskránum sem hann þylur. Hann er vissulega ættfræðingur.

Til baka í greinasafn