Drög að

Skipulagsskrá
fyrir Ættfræðisetur Íslands

1. gr.

Stofnunin heitir Ættfræðisetur Íslands og á hún lögheimili og varnarþing í Reykjavík.
Stofnunin er sjálfseignarstofnun og starfar hún samkvæmt lögum nr. 33 19. mars 1999 um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.

2. gr.

Tilgangur stofnunarinnar er að vera vettvangur rannsókna á ættfræði Íslendinga og miðlunar á ættfræðiupplýsingum til áhugafólks á því sviði. Hún skal einnig afla ættfræðiupplýsinga um afkomendur Íslendinga í öðrum ríkjum og um áa fólks af erlendu bergi brotnu sem sest hefur að á Íslandi.
Stofnunin skal standa fyrir námskeiðum og fyrirlestrahaldi fyrir almenning um íslenska ættfræði og helstu heimildir sem aðgengilegar eru á því sviði. Stofnunin skal einnig kappkosta að safna saman ættfræðiupplýsingum á heimasíðu sína og gera þær þannig aðgengilegar áhugafólki. Hún getur áskilið sér greiðslu fyrir þá fyrirhöfn sem söfnun og miðlun slíkra upplýsinga er samfara.

Stofnunin skal leitast við að koma upp góðu bókasafni fyrir ættfræðrit og stefna að því að þar sé að finna öll íslensk ættfræðirit og ættartöflur sem út hafa komið á prenti.

3. gr.

Stofnendur Ættfræðiseturs Íslands eru einstaklingar og fyrirtæki sem með óafturkræfu fjárframlagi kjósa að gerast stofnfélagar að Ættfræðisetrinu og jafnframt gerast félagar í stuðningsmannaráði þess. Ættfræðisetrið er rekið í nánu sambandi við ORG – það er ættfræði og þjóðfræðisafn það er Oddur Friðrik Helgason fræðimaður hefur komið á fót og rekur. Mun hún kaupa af Oddi eða Org þjónustu og njóta góðs af safni hans eftir nánara samkomulagi.
Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eigum sínum og öðrum þeim eignum sem hún kann að eignast síðar.

4. gr.

Félagar í stuðningsmannaráði stofnunarinnar eru allir stofnfélagar Ættfræðiseturs Íslands sem og þeir sem síðar óska eftir inngöngu í stuðningsmannaráð. Félagar greiða árgjald til stofnunarinnar skv. nánari ákvörðun ársfundar stofnunarinnar.

5. gr.

Stjórn stofnunarinnar skipa 5 stjórnarmenn sem kosnir eru á ársfundi stofnunarinnar úr hópi meðlima í stuðningsmannaráði hennar. Einnig skal Oddur Friðrik Helgason vera heiðursfélagi í stjórn stofnunarinnar meðan hann svo kýs. Stjórnin skal kjörin til tveggja ára í senn þó þannig að á fyrsta ársfundi skulu 3 stjórnarmenn kjörnir til 1 árs, en 2 til tveggja ára. Stjórnin veitir prókúruumboð fyrir stofnunina.

6. gr.

Starfsár og reikningsár stofnunarinnar er almanaksárið.
Á ársfundi stofnunarinnar sem haldinn skal í síðasta lagi í mars ár hvert, skal kjósa stjórn skv. framanskráðu ásamt 2 endurskoðendum reikninga. Þá skal stjórn hennar leggja fram ársreikning og fjárhagsáætlun næsta árs til umfjöllunar ásamt almennri stefnu stofnunarinnar. Einnig skal þar taka ákvörðun um árgjald meðlima í stuðningsmannaráði. Á fundinum skal einnig koma fram fræðsluefni er varðar íslenska ættfræði.

Til ársfundar skal boða skriflega eða á annan sannanlegan hátt með minnst 2ja vikna fyrirvara.

7. gr.

Hagnaði sem verða kann í starfi stofnunarinnar skal varið til að byggja upp varasjóð fyrir rekstur hennar og skal kappkosta að byggja hann upp á fyrstu 5 árum rekstrarins. Að því loknu er heimilt að nota hagnað stofnunarinnar til útgáfu- og fræðslustarfsemi sem nýtist íslenskum ættfræðirannsóknum.

8. gr.

Hægt er að breyta skipulagsskrá þessari með samþykkt ársfundar, enda skal breytinga getið í fundarboði og þær samþykktar með 2/3 hluta greiddra atkvæða.

9.gr.

Þar sem ákvæði samþykkta þessara ná ekki til skal hlíta ákvæðum laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur nr. 33/1999 svo og öðrum lagaákvæðum sem við geta átt.

Þannig samþykkt á stofnfundi Ættfræðiseturs Íslands xx.xx. 2007

Greinargerð

Hugmynd sú að stofnun „ættfræðiseturs“ , sem hér er sett fram hefur þróast í viðræðum við Odd Friðrik Helgason og fleiri aðila. Er hún tilkomin vegna augljósrar nauðsynjar þess að styðja við hið merkilega starf sem Oddur hefur unnið á undanförnum árum og einnig nauðsynjar þess að mynda bætta starfsaðstöðu fyrir áhugamenn um ættfræði um land allt. Í stuttu máli er gert ráð fyrir að formlega verði stofnuð stofnunin „Ættfræðisetur Íslands“ í samræmi við ákvæði laga nr. 33/1999.
Leitað verði eftir stofnframlögum meðal einstaklinga og fyrirtækja og væri fjárhæð þeirra t.d. á bilinu 10 – 100 þúsund krónur.

Jafnframt verði sett á fót stuðningsmannaráð Ættfræðisetursins og greiði meðlimir þess félagsgjöld á bilinu 3 – 5 þúsund krónur í upphafi, en síðan ákveði ársfundur setursins árgjöldin. Stuðningsmannaráðið hafi sérstaka stjórn og stýri það stuðningi ráðsins við Odd eða félag hans ORG og sé ábyrg gagnvart ársfundi ráðsins um gerðir sínar. En stuðningsmannaráðið hefur fleiri verkefni. Þar ber hæst að safna saman íslenskum ættfræðiritum og tölvutækum gögnum um ættfræði á einn stað og eiga meðlimir ráðsins aðgang að því efni. Hér má t.d. nefna aðgang að efni Erfðafræðinefndar að fengnu samþykki nefndarinnar og og að sömuleiðis að efni sem Friðrik Skúlason hefur tekið saman í tengslum við gerð Íslendingabókar.

Nauðsynlegt er að Ættfræðisetrið hafi gott húsnæði til starfsemi sinnar og sömuleiðis nægan tölvukost til þess að halda utan um ættfræðigögn og birtingu þeirra á netinu. Félagið myndi leita eftir samstarfi við Ættfræðifélagið. Þá væri æskilegt að félagið stæði fyrir útgáfustarfsemi, þar sem tekin væru til meðferðar ýmis vandamál í ættfræðirannsóknum sem við er að glíma. Félagið myndi einnig gangast fyrir námskeiðum um sama efni.

Ljóst er að til viðbótar við stofnframlög og stuðningsmanna mun félagið þurfa að leita eftir árlegum framlögum frá stofnunum og einstaklingum, en væntanlega yrði sú fjáröflun auðveldari ef unnt væri að sýna fram á öflugt starf félagsins.