Ýmsar upplýsingar

ORG - ættfræðiþjónustan ehf er íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í ættrakningum og söfnun allra þeirra ættfræðigagna sem Íslendinga varðar, þar með taldir Vestur-Íslendingar.
Aðaláherslan hefur verið lögð á söfnun framætta og hefur þar verið stuðst við ritaðar heimildir fyrri tíma, s.s. kirkjubækur, manntöl, dómabækur, skiptabækur, skuldaskrár og legorðsreikninga. Mikil vinna hefur verið lögð í að afla gagna, ekki síst handrita, alls staðar að á landinu, og á ættfræðiþjónustan ORG nú mikið og gott bókasafn sem að mörgu leyti er einstakt í sinni röð.

Landsbokasafn

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, Reykjavíkurakademían og ORG ættfræðiþjónustan undirrituðu samninga um samstarf 15. nóvember 2007. Fremri röð frá vinstri Viðar Hreinsson framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar, Oddur Helgason ættfræðingur og Ingibjörg Sverrisdóttir landsbókavörður Fyrir aftan: Örn Hrafnkelsson forstöðumaður handritadeildar Landsbókasafns og Rögnvaldur Guðmundsson formaður Samtaka um sögutengda ferðaþjónustu.
Sjá Samning

ORG-ættfræðiþjónustan hefur átt gott samstarf við ýmsa aðila bæði opinbera aðila og einkaaðila. Má þar nefna Erfðafræðinefnd, Handritadeild Landsbókasafns Íslands og Háskólabókasafns, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Héraðsskjalasafn Skagfirðinga, Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar, Héraðsskjalasafn Árnesinga, Héraðsskjalasafnið á Hvammstanga, Gunnlaug Haraldsson þjóðháttafræðing, Ragnar Ólafsson ættfræðing, Hjalta Pálsson ættfræðing (fyrrv. framkv.stj. Rvík) og Skúla Skúlason ættfræðing frá Hólsgerði í Kinn. Mikið hefur einnig verið stuðst við safn mormóna, "Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu", á Íslandi. Gott samstarf hefur einnig verið við þá sem að vinna að skráningu ábúendatala Eyfirðinga, Landeyinga og Borgfirskra æviskráa auk ættfræðinga og áhugafólks um ættfræði víðsvegar á landinu.

Það er von fyrirtækisins að safn þess geti nýst við útgáfu ættfræðirita, við erfðafræðirannsóknir, sagnfræði, mannfræði, félagsfræði, læknisfræði o.fl. Einnig við tengsl Íslendinga og Vestur-Íslendinga í Canada og USA en ættfræðiþjónustan hefur nú nær fullunnið þær sýslur sem flestir fluttust frá til Vesturheims. Ættfræðiáhugi Íslendinga er mjög mikill og það hefur því verið áhugaefni og kappsmál ORG-ættfræðiþjónustunnar að koma á tö1vutækt form öllum þeim ættarfróðleik sem mögulegt er að nálgast og gera þannig sem flestum kleift að fá fróðleik um ættir sínar svo og tengsl sín innbyrðis.